Frítt inn á Ljósmyndasafn Reykjavíkur á Menningarnótt

Í tilefni af Menningarnótt verður ókeypis inn á Ljósmyndasafn Reykjavíkur kl. 13-20 þann 23. ágúst. Á safninu eru nú tvær sýningar. Sýningin "Samferðamaður" og sýningin "Kvennafrídagurinn 24. október 1975".
Á sýningunni "Samferðamaður" er farið yfir ríflega fimmtíu ára feril Gunnars V. Andréssonar fréttaljósmyndara – frá 1966 til 2017. Myndir hans sem birtar voru í dagblöðunum Tímanum, Vísi, DV (Dagblaðinu Vísi), Fréttablaðinu og á fréttavefnum visir.is, eru ómetanleg heimild um íslenskt þjóðlíf. Sýningin er sett upp á þann hátt að áhorfandinn gengur í gegnum tímann, ef svo má segja. Myndirnar eru sveipaðar tíðaranda hvers skeiðs fyrir og sýna glöggt breytingarnar sem urðu á tímabilinu – hvort sem er á umhverfi eða hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Sýningin "Kvennafrídagurinn 24. október 1975" stendur nú yfir í Skotinu. Í ár eru 50 ár liðin frá því að konur hér á landi lögðu niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið. Kvennafrí var haldið 24. október til að mótmæla margvíslegri mismunun gegn konum á vinnumarkaðnum og vekja athygli á framlagi kvenna til samfélagsins. Ljósmyndirnar á sýningunni eru allar teknar á Kvennafrídeginum sem haldinn var á Lækjartorgi 24. október 1975 en talið er að 25.000 konur hafi sótt fundinn. Líklega er þetta einn stærsti útifundur Íslandssögunnar, en viðburðurinn vakti heimsathygli. Verið velkomin á Ljósmyndasafn Reykjavíkur á Menningarnótt! Aðgengi er gott á Ljósmyndasafninu og leiðsöguhundar eru velkomnir í safnið.