Frítt inn á Sjóminja­safnið í Reykjavík á Menn­ing­arnótt

Frítt inn á Sjóminjasafnið í Reykjavík á Menningarnótt

Í tilefni af Menningarnótt verður ókeypis inn á Sjóminjasafnið í Reykjavík kl. 10-20 þann 23. ágúst.

Grunnsýningin "Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár" fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Þessi margslungna saga er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Umgjörðin á Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, en safnhúsið hýsti áður blómlega fiskvinnslu. Sýningin "Glöggt er gests augað" er í Vélasalnum. Hún fjallar um norðurslóðaleiðangra franskra ferðalanga og er samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í maí 1835 kom franski herlæknirinn og ævintýramaðurinn Paul Gaimard til Reykjavíkur í leit að skipinu La Lilloise, en heillaðist af landi og þjóð. Hann stýrði stærsta erlenda vísindaleiðangri sem farið hefur til Íslands, með hópi fræðimanna og listamanna sem rannsökuðu menningu, mannlíf og náttúru landsins árin 1835–1836. Niðurstöðurnar birtust í 12 bókum sem urðu mikilvæg heimild um Ísland á 19. öld og höfðu djúpstæð áhrif á bæði ímynd landsins og sjálfsmynd Íslendinga. Verið velkomin á Sjóminjasafnið í Reykjavík á Menningarnótt! Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott á Sjóminjasafninu, sérstaklega við inngang Grandagarðsmegin. Lyfta er á milli hæða.