Frönsk dægurlög á Menningarnótt

Í tilefni af Menningarnótt og sýningunni „Glöggt er gests augað“, sem nú prýðir Vélasal Sjóminjasafnsins, munu franskir tónar óma um safnið þann 23. ágúst kl. 18-20. Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.
Tónlistardúóið Ásþór og Svavar munu þá stíga á stokk og spila frönsk dægurlög í tengslum við sýninguna „Glöggt er gests augað“ í Vélasalnum, sem fjallar um norðurslóðaleiðangra franskra ferðalanga og er samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í maí 1835 kom franski herlæknirinn og ævintýramaðurinn Paul Gaimard til Reykjavíkur í leit að skipinu La Lilloise, en heillaðist af landi og þjóð. Hann stýrði stærsta erlenda vísindaleiðangri sem farið hefur til Íslands, með hópi fræðimanna og listamanna sem rannsökuðu menningu, mannlíf og náttúru landsins árin 1835–1836. Niðurstöðurnar birtust í 12 bókum sem urðu mikilvæg heimild um Ísland á 19. öld og höfðu djúpstæð áhrif á bæði ímynd landsins og sjálfsmynd Íslendinga. Ásþór og Svavar kynntust í Menntaskólanum í tónlist þar sem þeir stunduðu nám á rytmískri braut. Þeir hafa komið víða fram, bæði sem dúett á gítar og saxófón og í stærri hljómsveitum, þ.á m. Jazz þjónustunni sem þeir stofnuðu árið 2019. Þeir spila fjölbreytta tónlist við fjölbreytt tilefni í góðu yfirlæti. Viðburðurinn er hluti af fjölbreyttri dagskrá Borgarsögusafns á Menningarnótt. Aðgengi er gott á Sjóminjasafninu og leiðsöguhundar eru velkomnir í safnið.