Garn­skipti­mark­aður og samprjón

Garnskiptimarkaður og samprjón

Verið hjartanlega velkomin á garnskiptimarkað og samprjón á Sjóminjasafninu sunnudaginn 6. október kl. 14-16. Þá gefst tækifæri til að losa sig við garn sem nýtist ekki og næla sér í efni í næsta prjónaverkefni. Allt afgangsgarn er velkomið, hvort sem það er heil dokka eða rest af hnykli.

Prjón er samfélagsleg iðja þó svo að prjónarar séu oftast einir við iðju sína. Tæknin hefur þróast í gegnum árin í mismunandi heimshornum og vitneskjan því ferðast víða. Talið er að saga prjóns á Íslandi hafi hafist á 16. öld fyrir tilstuðlan erlendra áhrifa. Garn og ullarvinnsla á sér auðvitað ennþá lengri sögu og ullarvinnsla hér á landi jafn gömul íslensku kindinni, en til dæmis voru segl á víkingatímanum ofin úr ull. Þá hafa lopapeysur og tvíþumla vettlingar einnig haldið hita á sjómönnum um aldaskeið. Við hlökkum innilega til að sjá ykkur og garnið sem leynist í fjársjóðskistunum. Það verður heitt á könnunni, notaleg tónlist og góður félagsskapur. Tilvalið er að tylla sér með prjónana, en einnig verður aðstoð í boði fyrir þá sem eru stopp í verkefninu sínu, sem og þá sem langar að læra grunntækni í prjóni. Ókeypis inn - Öll velkomin!