Harmoniku­hátíð og heyannir

Harmonikuhátíð og heyannir

Sunnudaginn 13. júlí, verður hin árlega Harmonikuhátíð Reykjavíkur haldin í samstarfi við Árbæjarsafn og hefst dagskráin kl. 13:00 og stendur til kl. 16.00.

Á hátíðinni, sem haldin er í minningu stofnanda hennar, Karls Jónatanssonar harmonikufrumkvöðuls, koma fram margir af landsins bestu og þekktustu harmonikuleikurum í fallegu umhverfi safnsins. Þetta er 27. árið sem Harmonikuhátíðin er haldin og hefur þetta oftar en ekki verið vinsælasti viðburður Árbæjarsafns á hverju sumri. Sem endranær munu félagar úr félagi harmonikuunnenda á Suðurnesjum (FHUS) slá upp balli í Kornhúsinu fyrir þá sem vilja dansa og það verður líka dansað í Landakoti/ÍR húsinu þar sem hljómsveitin Blær mun halda uppi fjörinu. Tónleikar verða inni í Lækjargötunni þar sem fólk getur sest niður og hlustað á þekkta harmonikuleikara, s.s. Reyni Jónasson, Grétar Geirsson og Sigurð Alfonsson auk Léttsveitar Harmonikufélags Reykjavíkur. Harmonikusveitin Vitatorgsbandið verður í hesthúsinu venju samkvæmt og Páll Elíasson mun halda uppi stemningunni í Dillonshúsi.