Í fjarska norð­ursins - Leið­sögn með Sumarliða R. Ísleifs­syni á Safn­anótt

Í fjarska norðursins - Leiðsögn með Sumarliða R. Ísleifssyni á Safnanótt

Verið velkomin í leiðsögn um sýninguna Glöggt er gests augað með Sumarliða R. Ísleifssyni á Sjóminjasafninu í Reykjavík. Leiðsagnirnar fara fram á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 19 og 20. Ókeypis inn og öll velkomin! Sumarliði mun árita bækur sínar, "Í fjarska norðursins" og "Iceland and Greenland" að seinni leiðsögninni lokinni um kl. 21. Bækurnar eru fáanlegar í safnbúð Sjóminjasafnsins. Sýningin Glöggt er gests augað prýðir Vélasal Sjóminjasafnsins. Hún fjallar um norðurslóðaleiðangra franskra ferðalanga og er samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í maí 1835 kom franski herlæknirinn og ævintýramaðurinn Paul Gaimard til Reykjavíkur í leit að skipinu La Lilloise, en heillaðist af landi og þjóð. Hann stýrði stærsta erlenda vísindaleiðangri sem farið hefur til Íslands, með hópi fræðimanna og listamanna sem rannsökuðu menningu, mannlíf og náttúru landsins árin 1835–1836. Niðurstöðurnar birtust í 12 bókum sem urðu mikilvæg heimild um Ísland á 19. öld og höfðu djúpstæð áhrif á bæði ímynd landsins og sjálfsmynd Íslendinga. Sumarliði R. Ísleifsson er doktor í sagnfræði. Hann hefur kannað ímyndasögu Íslands og Grænlands um langt skeið og fjallað um það í greinum og bókum. Þar á meðal bókina "Í fjarska norðursins", sem er saga viðhorfa til Íslands og Grænlands frá miðöldum til samtímans. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott á Sjóminjasafninu, sérstaklega við inngang Grandagarðsmegin. Lyfta er á milli hæða.