Klipp­ismiðja fyrir börn með Telmu Har

Klippismiðja fyrir börn með Telmu Har

Við bjóðum börn og forráðafólk þeirra velkomin á klippimyndasmiðju Telmu Har sunnudaginn 6. apríl. Þátttaka er ókeypis.

Smiðjan er haldin í tengslum við sýningu Telmu Har, Glansmyndir sem nú stendur yfir í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Listamaðurinn leiðbeinir þátttakendum hvernig má gera skemmtilegar klippimyndir með ljósmyndum og ýmsu efni á fjölbreyttan hátt. Við hvetjum þátttakendur til að koma með eigin ljósmyndir (t.d sjálfsmyndir) til að nota í listaverkin, en einnig verður nóg af efniðvið á staðnum. Smiðjan hentar vel öllum aldurshópum og foreldrar hvattir til að taka þátt með börnunum. Allt efni verður á staðnum og aðgangur er ókeypis. Takmarkaður fjöldi kemst að í einu. Sýningin Glansmyndir samanstendur af litríkum og hálf súrrealískum ljósmyndaverkum sem listamaðurinn Telma Har hefur sett saman á ólíkan hátt. Í listsköpuninni fæst Telma við eigin sjálfsmynd sem mótast hefur af erfðum, uppeldi og umhverfinu. Í verkunum notar hún sjálfa sig sem hálfgerða „gínu“ til að túlka tilteknar hugmyndir, upplifun og reynslu og túlka þannig hugmyndina sjálfið og veruleikann sem það tilheyrir. Telma notar ljósmyndavélina sem tæki til að skapa óraunverulegt og óhlutbundið myndefni, með það að markmiði að draga fram ólík form og samsetningu hlutana og velta þannig upp spurningum um norm og viðmið um fegurð, kyn og stöðu. Aðgengi er gott á Ljósmyndasafninu. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næstu stoppistöðvar heita Hafnarhús, Lækjartorg, Ráðhúsið (2-5 mín. gangur).