Morskóða­smiðja í haust­fríinu

Morskóðasmiðja í haustfríinu

Verið velkomin í morskóðasmiðju á Sjóminjasafninu í Reykjavík í haustfríinu 28. október kl. 10-12. Ókeypis inn og öll velkomin! Viltu læra að skrifa nafnið þitt með morskóða? Eða jafnvel senda leynileg skilaboð? Í haustfríinu bjóðum við upp á morskóðasmiðju fyrir fjölskyldur þar sem hægt verður að kynnast morskóða og búa til hálsmen eða armbönd úr perlum sem standa fyrir hljóðmerkin. Smiðjan verður í Bryggjusalnum, 1. hæð. Leiðbeiningar ásamt öllum efnivið fyrir smiðjuna verður til staðar. Morskóði er samskiptakerfi þar sem hljóð-, ljós- eða merkjasendingar af mismunandi lengd eru notaðar í stað bókstafa og tölustafa. Áður fyrr var hann mikið notaður á skipum m.a. til að senda bráðnauðsynleg skilaboð, sérstaklega þegar önnur fjarskipti voru ekki möguleg. Með því að blikka ljósum eða gefa frá sér hljóðmerki gátu skip sent neyðarköll, staðsetningu eða aðrar mikilvægar upplýsingar yfir langar vegalengdir. Á eftirfarandi hlekk inn á vef Kvennasögusafnsins er að finna skemmtilega sögu af sjókonum sem sendu skilaboð með morskóða á fjöldafund fyrsta Kvennafrídagsins 1975: https://kvennasogusafn.is/index.php?page=sagan-hennar-mommu Viðburðurinn er hluti af haustfrísdagskrá Borgarsögusafns. Frítt er inn á alla sýningarstaði safnsins fyrir fullorðna í fylgd barna dagana 24.-28. október.

Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er gott á Sjóminjasafninu, sérstaklega við inngang Grandagarðsmegin. Lyfta er á milli hæða. Strætisvagnar 3. og 14. stoppa á stoppistöðinni Grandagarður, rétt við safnið.