Námskeið: Varð­veisla eldri húsa

Námskeið: Varðveisla eldri húsa

VARÐVEISLA ELDRI HÚSA er yfirskrift námskeiðs á vegum Húsverndarstofu sem ætlað er fag- og áhugafólki um viðgerðir og viðhald eldri húsa. Námskeiðið fer fram á Árbæjarsafni dagana 28. -29. mars. Fullt verð er 48.000 kr. en aðilar IÐUNNAR greiða 12.000 kr. Skráning fer fram á vef Iðunnar sjá meðfylgjandi hlekk.

Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum innsýn í helstu þætti er varða endurbætur og varðveislu eldri húsa. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um lög og reglugerðir er varða viðgerðir og viðhald á vernduðum húsum. Farið verður yfir helstu tímabil og einkenni íslenskrar byggingarsögu ásamt byggingartæknilegum áskorunum. Helstu áskoranir varðandi viðgerðir og framkvæmd þeirra verða einnig til umfjöllunar. Námskeiðið verður haldið á Árbæjarsafni og verða safnhúsin þar skoðuð út frá byggingartækni og efnisnotkun. Dagur 1 • Kynning á lögum og reglugerðum er varða vernduð hús. • Yfirferð á helstu tímabilum íslenskrar byggingarsögu með áherslu á timbur- og steinsteypt hús. • Yfirferð á litanotkun út frá ólíkum byggingarstílum og tímabilum. • Yfirferð á helstu byggingar- og viðgerðarefnum. • Kynning á gagnlegum bókum, útgefnu efni og leiðbeiningum er varða viðgerðir og viðhald húsa á Íslandi. Dagur 2 • Byggingartæknilegar áskoranir í varðveislu. • Timburhús og viðgerðir. • Burðarvirki timburhúsa. • Íslensku bárujárnshúsin. • Viðgerðir steyptra húsa. • Viðgerðir glugga og hurða. • Íslensk þök. • Áskoranir við að nútímavæða gömul hús. • Gengið um Árbæjarsafn og rætt um húsin. Leiðbeinendur eru Snædís Traustadóttir húsasmíðameistari og Alma Sigurðardóttir sérfræðingur í varðveislu bygginga. Húsverndarstofa er fyrir húseigendur, iðnaðarmenn, arkitekta, námsmenn og allt áhugafólk um byggingarsögu og húsvernd. Að henni standa Iðan fræðslusetur, Minjastofnun Íslands og Borgarsögusafn Reykjavíkur. 📷 Valdís Óskarsdóttir. Myndin er tekin í Bankastræti 2 árið 1981.