Ösku­poka­smiðja

Öskupokasmiðja

Öskudagur er á næsta leiti og af því tilefni bjóðum við upp á öskupokasmiðju fyrir börnin mánudaginn 24. febrúar milli kl. 13-15. Frítt fyrir börn og fullorðna í þeirra fylgd í tilefni af vetrarfríinu.

Á öskudaginn klæða börn sig í búninga og ganga fylktu liði um bæinn í leit að sælgæti í skiptum fyrir söng. Fæst börn í dag þekkja hins vegar þá hefð að hengja öskupoka aftan á fólk. Þau sem eldri eru muna vel eftir spennunni sem fylgdi því að fara í bæinn í búning og hengja poka aftan á ókunnuga, helst fullorðna, án þess að þeir yrðu þess varir. Það vakti mikla kátínu allra að sjá grunlaust fólk ganga um bæinn með litríka poka aftan á sér. Þessi hefð hefur nær alveg horfið en nú gerir Árbæjarsafn tilraun til þess að endurvekja hana með því að bjóða upp á öskupokasmiðju. Allt efni verður á staðnum og fer smiðjan fram í húsi sem nefnist Lækjargata við safntorgið. Myndina tók Gunnar V. Andrésson og er filman nú varðveitt á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Aðgengi: Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir malarstígar. Inn í flest húsin er gengið upp eitt þrep eða yfir þröskuld. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næsta stoppistöð heitir Árbæjarsafn (1 mín. gangur). Aðrar nálægar stoppistöðvar heita Laxakvísl og Fagribær (5-6 mín. gangur). Bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru við inngang safnsins. Öll bílastæði eru ókeypis.