Opnun: Stemning sem var - Guðmundur Einar

Verið velkomin á opnun sýningarinnar „Stemning sem var“ í Skotinu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur þann 30. október kl. 16-18. Léttar veitingar verða á boðstólum. Ókeypis inn! „Stemning sem var“ er yfirskrift sýningar listamannsins Guðmundar Einars sem stendur yfir í Skotinu 30. október til 31. desember 2025. Á henni birtast okkur það sem hann kallar: „sjúskaðar en heiðarlegar leifturmyndir úr nálægri en rómantískri fortíð.“
Á tímabilinu 2010-2018 tók Guðmundur Einar mikinn fjölda mynda af fólki og hlutum sem gripu auga hans – aðallega í Reykjavík en einnig í Lundúnum og New York. Myndirnar, sem hann framkallaði ekki fyrr en nýverið, fanga stemningu þessa tímabils, og þegar hann sá þær áttaði hann sig á því að fyrir honum væru þetta dýrgripir. Handan myndanna eru minningar hins liðna, sambönd sem hafa liðið undir lok, gömul heimsmynd. Þær sýna samfélag sem var en líka óvæntan, fundinn kafla í hans eigin ævisögu. Meðal viðfanga eru ýmsir þjóðþekktir aðilar, sem margir hverjir voru óþekktir þegar myndirnar voru teknar. Myndirnar vekja upp spurningar sem tengjast minningum og tíðaranda. Hvernig munum við eftir hlutunum? Er myndin traustari heimild um stemningu en minningin sjálf? Skiljum við augnablikið betur þegar við dveljum í því eða þegar við, löngu síðar, setjum það í samhengi tímans? Segir myndin sannleikann eða er hún valin, og að einhverju marki sviðsett sem tilraun til að segja ákveðna sögu? Aðgengi er gott á Ljósmyndasafninu. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næstu stoppistöðvar heita Hafnarhús, Lækjartorg, Ráðhúsið (2-5 mín. gangur).