Sjómannadag­urinn 2025

Sjómannadagurinn 2025

Í tilefni Sjómannadagsins býður Sjóminjasafnið í Reykjavík ókeypis aðgang að sýningum safnsins og Varðskipinu Óðni. Einnig verður Slysavarnarfélagið Landsbjörg með kaffisölu í Bryggjusal Sjóminjasafnsins til styrktar sínu mikilvæga starfi og það með harmonikkuundirleik. Verið hjartanlega velkomin!

Kl. 10:00-17:00 // Ókeypis inn á Sjóminjasafnið í Reykjavík Grunnsýning Sjóminjasafnsins, „Fiskur & fólk: Sjósókn í 150 ár“ fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, og sett fram á lifandi hátt með gripum og textum, myndum og leikjum. Sýningin er byggð kringum aðalpersónu þessarar sögu: Fiskinn sjálfan. Honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn. Glöggt er gests augað er ný sýning í Vélasalnum en sýningin er tileinkuð sögufrægum Íslandsleiðöngrum franska sjóherlæknisins og náttúruvísindamannsins Paul Gaimard árin 1835 og 1836. Hingað sigldi Gaimard á herskipinu La Recherche í leit að skipinu La Lilloise sem aðstoða átti franska sjómenn við Íslandsstrendur en hafði horfið sporlaust. Ásamt valinkunnum hópi fræðimanna nýtti hann ferðina til að rannsaka og skrásetja menningu, mannlíf og náttúru á þessari afskekktu eyju á norðurhjara. Afrakstur leiðangursins: ferðarit og dagbækur þeirra Paul Gaimard, Eugéne Robert og Xavier Marmier, sem og 200 teikningar Auguste Mayer, eru ómetanleg heimild um Ísland á 19. öld og lykilþáttur í mótun menningararfs okkar. Að sýningunni standa nemendur í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur. Sérstakur ráðgjafi sýningarinnar er Sumarliði Ísleifsson, doktor í sagnfræði og höfundur bókarinnar Í Fjarska norðursins. Kl. 13:00-16:00 // Varðskipið Óðinn – Velkomin um borð! Allir upp á dekk! Hægt verður að stíga um borð í Varðskipið Óðin. Kl. 11:00-17:00 // Veitingasala Slysavarnafélagsins í Bryggjusal Sjóminjasafnsins Reykjavíkurdeild Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður með ljúffengar veitingar til sölu til styrktar sínu mikilvæga starfi í Bryggjusal Sjóminjasafnsins. Kl. 13:00-15:00 // Harmonikkutónlist í Bryggjusal Sjóminjasafnsins Taktföst harmonikkutónlist fyllir Bryggjusalinn. Tilvalið tækifæri til að hlýða á sjómannalögin og jafnvel stíga sjómannavals.