Sögu­ganga um Keldna­land

Söguganga um Keldnaland

Verið velkomin í ókeypis sögugöngu um Keldnaland, fimmtudaginn 11. september kl. 17:30-19:00. Anna Lísa Guðmundsdóttir, verkefnastjóri fornleifa á Borgarsögusafni og Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur munu leiða göngugesti um Keldnaland með sérstakri áherslu á fornleifar og menningarminjar. Þær hafa báðar sinnt rannsóknum á svæðinu. Salvör vann húsakönnun um Keldur og Keldnaholt árið 2022 og Anna Lísa var ein af aðstandendum fornleifaskráningar á sama svæði árið 2024. Við hittumst á bílastæðinu við Tilraunastöð HÍ að Keldum og röltum svo að bæjarstæðinu á Keldum og áleiðis, m.a. um landssvæði Grafar. Til að komast að Keldum er best að aka Stórhöfða. Gangan fer fram utandyra og yfir ójafnt landslag svo mætið vel skóuð og klædd eftir veðri.

Ekki er vitað hvenær byggð hófst á Keldum, en heimildir um búskap þar eru til allt frá 14. öld og var landbúnaður stundaður þar fram til 1940 þegar ríkissjóður keypti jörðina til að reka þar rannsóknarstöð háskólans. Tilraunastöðin á Keldum var síðan formlega stofnuð 1946. Í landi Keldna eru tugir fornleifa sem vitna um líf, starf og samgöngur í nágrenni borgarinnar fyrr á öldum. Þá eru byggingarnar sem standa á Keldum merkur hluti af sögu vísindarannsókna, sem enn eru stundaðar á staðnum. Borgarsögusafn gegnir fjölbreyttu hlutverki á sviði fornleifaverndar og varðveislu menningarminja og hefur um árabil gert húsakannanir og fornleifaskráningar samkvæmt lögum um deiliskipulag. Húsakönnun er byggingarlistaleg og menningarsöguleg könnun sem byggir á skráningu húsa og mannvirkja sem studd er sagnfræðilegum heimildum, vettvangskönnun og mati á varðveislugildi einstakra húsa, húsasamstæða, byggðaheilda og svipmóti byggðar. Fornleifaskráning er fornleifarannsókn án jarðrasks og felst í heimilda- og vettvangskönnun á minjum á tilteknu svæði, lýsingu, staðháttum og standi og gerð minjanna, mati á aldri þeirra, hlutverki og tegund ásamt varðveislumati. Viðburðurinn er haldinn í tilefni af Menningarminjadögum Evrópu. #EHD #EHDIceland #menningarminjadagar