Þriðju­dags­þræðir - Áhrif og eftir­málar skriðu­fall­anna á Seyð­is­firði

Þriðjudagsþræðir - Áhrif og eftirmálar skriðufallanna á Seyðisfirði

Þann 21. október kl. 16:00-17:00 verður flutt fjórða erindið í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsþræðir á Landnámssýningunni Aðalstræti. Ókeypis inn og öll velkomin! Í þetta sinn mun Guðný Ósk Guðnadóttir þjóðfræðingur kynna nýlega rannsókn sína, „Þarna vil ég búa, undir fossinum á túninu“: Áhrif og eftirmálar skriðufallanna á Seyðisfirði. Rannsóknin fjallar um upplifun bæjarbúa af aurskriðunum sem féllu í Seyðisfirði í desember 2020 og ollu gífurlegri eyðileggingu. Efnislegar og sálrænar afleiðingar hamfaranna eru til skoðunar sem og þau áhrif sem þær höfðu á tengsl íbúa við heimabæ sinn og vilja þeirra til áframhaldandi búsetu í firðinum. Viðburðurinn er haldinn í góðu samstarfi Borgarsögusafns og Félags þjóðfræðinga á Íslandi.

Þarftu táknmálstúlkun? Við höfum þann háttinn á að þau sem óska eftir táknmálstúlk, hafa samband sjálf við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þetta er í boði á völdum viðburðum. Samskiptamiðstöð sendir svo reikning beint á Borgarsögusafn Reykjavíkur. Aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk í Aðalstræti er gott. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næstu stoppistöðvar heita MR og Ráðhúsið (2-5 mín. gangur).