Þriðju­dags­þræðir - Samkennd­ar­skápar: Af frískápum og ósýni­legu heim­il­is­fólki

Þriðjudagsþræðir - Samkenndarskápar: Af frískápum og ósýnilegu heimilisfólki

Þann 27. maí kl. 16:00-17:00 verður flutt þriðja erindið í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsþræðir á Landnámssýningunni Aðalstræti. Ókeypis inn og öll velkomin! Í þetta sinn mun Rakel Jónsdóttir þjóðfræðingur kynna nýlega rannsókn sína á frískápum á Íslandi, SAMKENNDARSKÁPAR: AF FRÍSKÁPUM OG ÓSÝNILEGU HEIMILISFÓLKI. Frískápar eru deili-ísskápar sem eru staðsettir utandyra í almannarými en þangað getur hver sem er komið með mat til þess að setja í ísskápana og sömuleiðis sótt sér þann mat sem það vill.

Við nánari athugun virðist búa meira að baki því að gefa og þiggja mat úr frískáp en einungis að draga úr matarsóun. Þessar athafnir eru nátengdar samkennd og tilfinningum. Rannsóknin sem gerð var á tímabilinu 2021-2023 miðaði að því að rannsaka tilfinningalega upplifun þeirra sem gefa reglulega í frískápana og skoða hvaða merkingu fólk leggur í þá iðkun. Hluti rannsóknarinnar var heimildarmyndin Samkenndarskápar þar sem vakin er athygli á rískápum, tilgangi og stöðu þeirra í almannarými. Í lok erindisins verður myndin sýnd en hún hlaut verðlaun sem besta heimildarverkið á kvikmyndahátíðinni Stockfish árið 2024. Viðburðurinn er haldinn í góðu samstarfi Borgarsögusafns og Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Þarftu táknmálstúlkun? Í ár verður sá háttur á að þau sem óska eftir táknmálstúlk hafa samband sjálf við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þetta verður í boði á völdum viðburðum. Samskiptamiðstöð sendir svo reikning beint á Borgarsögusafn Reykjavíkur. Aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk í Aðalstræti er gott. Hjálparhundar eru velkomnir í safnið. Strætisvagnar: Næstu stoppistöðvar heita MR og Ráðhúsið (2-5 mín. gangur).