Varð­skipið Óðinn - leið­sögn um borð

Varðskipið Óðinn - leiðsögn um borð

Við bjóðum daglegar leiðsagnir frá mars-nóvember í hinu sögufræga varðskipi Óðni þar sem þorskastríðin og björgunarsaga skipsins eru í brennidepli. Velkomin um borð!

Varðskipið Óðinn er hluti af Sjóminjasafninu og um leið ein helsta sýning safnsins. Skipið kom til safnsins árið 2008 og er varðveitt í því ástandi sem það kom. Boðið er upp á leiðsagnir á hverjum degi fyrir utan köldustu vetrarmánuðina auk þess sem skipið er opið gestum á hátíðisdögum sem er þá sérstaklega auglýst. Í leiðsögn er gengið um skipið, sagt frá sögu þess, lífinu um borð og því hlutverki sem að það gegndi hjá Landhelgisgæslu Íslands. Hver leiðsögn tekur tæplega klukkustund. Til þess að tryggja öryggi um borð skal hafa í huga: Lágt getur verið til lofts og hvassar brúnir og horn sem hægt er að reka sig í. Stigar eru brattir. Skipið hentar ekki fólki sem fær innilokunarkennd eða hefur skerta hreyfigetu. Börn yngri en 12 ára skulu ætíð vera í fylgd með fullorðnum. Börn eru á ábyrgð forráðamanna.