Borgarsögusafn
Sagan okkar
Staðirnir okkar
Viðburðir
Jöklar og lón - Skuggasmiðja á Safnanótt
Verið velkomin í skapandi skugga- og klippismiðju fyrir börn og fjölskyldur á Ljósmyndasafninu á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-20. Ókeypis inn og öll velkomin! Smiðjan tengist sýningunni Sofandi risar þar sem Kristján Maack sýnir myndir af jöklum þar sem „sofandi risar“ verða til og hverfa. Í smiðjunni klippum við út allskyns verur og jökla og skoðum hvernig skuggamyndir verða til. Smiðjan er opin og sveigjanleg – komið þegar ykkur hentar og takið þátt á ykkar hraða. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Fókus á Safnanótt
Verið velkomin á sýningu Fókus – Félags áhugaljósmyndara á Ljósmyndasafni Reykjavíkur á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22. Ókeypis inn og öll velkomin! Ljósmyndararnir á bakvið sýninguna verða á svæðinu til að spjalla um sýninguna og félagið. „Hreyfing“ nefnist fyrsta sýning félaga úr Fókus – Félagi áhugaljósmyndara sem mun taka yfir sýningarrýmið SKOTIÐ árið 2026. Orðið „hreyfing“ má túlka í ljósmynd á mismunandi vegu, til dæmis með því að frysta hreyfingu í mynd, fylgja hreyfingu eftir með myndavélinni, eða taka myndir af ýmsum „hreyfingum“ samfélagsins, svo sem verkalýðshreyfingu eða mótmælahreyfingu. Sýnendur eru: Dagþór Haraldsson Geir Gunnlaugsson Ósk Ebenesersdóttir Ólafur Magnús Håkansson Sveinn Aðalsteinsson Þorsteinn Friðriksson Jafnframt verður á skjá myndasyrpa frá Fókus félögum sem kallast "Með sól í hjarta", þetta er 15 mínútna sýning sem mun rúlla stöðugt allt kvöldið. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Ferðakistur - Fjölskyldusmiðja á Safnanótt
Förum í leiðangur! Verið velkomin í fjölskyldusmiðju á Sjóminjasafninu í Reykjavík á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22. Ókeypis inn og öll velkomin! Ímyndaðu þér að þú sért að fara í langa ferð yfir hafið. Þú ferð með skipi og færð eina stóra ferðakistu til að setja allt sem þú þarft í leiðangrinum. Á 19. öld fóru landkönnuðir og vísindamenn í langar og erfiðar ferðir yfir hafið til að rannsaka ný lönd. Paul Gaimard var franskur náttúrufræðingur sem kom til Íslands árið 1835 með stóran hóp vísindamanna. Þeir komu með koffort og kistur fullar af búnaði sem þeir þurftu til að lifa af og vinna sína rannsóknarvinnu. Í koffortunum voru ótrúlegustu hlutir. Hvað myndir þú taka með? Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Finndu sjávardýrin! - Ratleikur á Safnanótt
Getur þú fundið sjávardýrin? Verið velkomin í ratleik á Sjóminjasafninu í Reykjavík á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22. Ókeypis inn og öll velkomin! Finndu sjávardýrin! er léttur og skemmtilegur ratleikur sem leiðir ykkur um sýninguna Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár. Markmiðið er að finna ýmis konar sjávardýr sem hafa falið sig víðsvegar um sýninguna. Um leið og leitað er að sjávardýrunum má fræðast um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Frítt inn á Sjóminjasafnið á Safnanótt
Verið velkomin á Sjóminjasafnið í Reykjavík á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22. Ókeypis inn og öll velkomin! Grunnsýningin "Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár" fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Þessi margslungna saga er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Umgjörðin á Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, en safnhúsið hýsti áður blómlega fiskvinnslu. Sýningin "Glöggt er gests augað" er í Vélasalnum. Hún fjallar um norðurslóðaleiðangra franskra ferðalanga og er samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í maí 1835 kom franski herlæknirinn og ævintýramaðurinn Paul Gaimard til Reykjavíkur í leit að skipinu La Lilloise, en heillaðist af landi og þjóð. Hann stýrði stærsta erlenda vísindaleiðangri sem farið hefur til Íslands, með hópi fræðimanna og listamanna sem rannsökuðu menningu, mannlíf og náttúru landsins árin 1835–1836. Niðurstöðurnar birtust í 12 bókum sem urðu mikilvæg heimild um Ísland á 19. öld og höfðu djúpstæð áhrif á bæði ímynd landsins og sjálfsmynd Íslendinga.











