Borgarsögusafn
Sagan okkar
Staðirnir okkar
Viðburðir
Hvar býr litla gula kisan? - Ratleikur á Safnanótt
Getur þú fundið litlu gulu kisuna? Verið velkomin í ratleik um Landnámssýninguna Aðalstræti á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 10-23. Ókeypis inn og öll velkomin! Á Landnámssýningunni niðri í bæ er lítil gul kisa. Hún fer alls staðar um sýninguna, inn í sýningarskápa, ofan á borð og upp í gluggakistur. Ef þú eltir litlu gulu kisuna um sýninguna geturðu kannski komist að því hvar hún á heima. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Jöklar og lón - Skuggasmiðja á Safnanótt
Verið velkomin í skapandi skugga- og klippismiðju fyrir börn og fjölskyldur á Ljósmyndasafninu á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-20. Ókeypis inn og öll velkomin! Smiðjan tengist sýningunni Sofandi risar þar sem Kristján Maack sýnir myndir af jöklum þar sem „sofandi risar“ verða til og hverfa. Í smiðjunni klippum við út allskyns verur og jökla og skoðum hvernig skuggamyndir verða til. Smiðjan er opin og sveigjanleg – komið þegar ykkur hentar og takið þátt á ykkar hraða. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Finndu sjávardýrin! - Ratleikur á Safnanótt
Getur þú fundið sjávardýrin? Verið velkomin í ratleik á Sjóminjasafninu í Reykjavík á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22. Ókeypis inn og öll velkomin! Finndu sjávardýrin! er léttur og skemmtilegur ratleikur sem leiðir ykkur um sýninguna Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár. Markmiðið er að finna ýmis konar sjávardýr sem hafa falið sig víðsvegar um sýninguna. Um leið og leitað er að sjávardýrunum má fræðast um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Borgarsögusafns á Safnanótt.

Frítt inn á Sjóminjasafnið á Safnanótt
Verið velkomin á Sjóminjasafnið í Reykjavík á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22. Ókeypis inn og öll velkomin! Grunnsýningin "Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár" fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Þessi margslungna saga er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Umgjörðin á Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, en safnhúsið hýsti áður blómlega fiskvinnslu. Sýningin "Glöggt er gests augað" er í Vélasalnum. Hún fjallar um norðurslóðaleiðangra franskra ferðalanga og er samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í maí 1835 kom franski herlæknirinn og ævintýramaðurinn Paul Gaimard til Reykjavíkur í leit að skipinu La Lilloise, en heillaðist af landi og þjóð. Hann stýrði stærsta erlenda vísindaleiðangri sem farið hefur til Íslands, með hópi fræðimanna og listamanna sem rannsökuðu menningu, mannlíf og náttúru landsins árin 1835–1836. Niðurstöðurnar birtust í 12 bókum sem urðu mikilvæg heimild um Ísland á 19. öld og höfðu djúpstæð áhrif á bæði ímynd landsins og sjálfsmynd Íslendinga.

Frítt inn á Landnámssýninguna Aðalstræti á Safnanótt
Verið velkomin á Landnámssýninguna Aðalstræti á Safnanótt, föstudaginn 6. febrúar kl. 18-23. Ókeypis inn og öll velkomin! Í Aðalstræti 10 og 16 geturðu séð hvernig Reykjavík þróaðist frá landnámi til dagsins í dag. Söguþráðurinn teygir sig neðanjarðar úr Aðalstræti 16 þar sem er rúst skála frá 10. öld í yfir í elsta hús Kvosarinnar, Aðalstræti 10 og sýnir þróun Reykjavíkur frá býli til borgar. Eldri hluti sýningarinnar í Aðalstræti 16 byggir á niðurstöðum vísindalegra fornleifarannsókna um það sem fornleifar í Reykjavík geta sagt okkur um líf og störf þeirra sem fyrst settust hér að. Ljósi er varpað á líf og tilveru fyrstu íbúa Reykjavíkur og tengsl þeirra við umhverfið í nýju landi í gegnum margmiðlunartækni og túlkun á fornminjum. Þungamiðjan er rúst skála frá 10. öld sem fannst árið 2001 og er varðveitt á sínum upphaflega stað og gefur hugmynd um umhverfi Reykjavíkur eins og það var við landnám. Norðan við skálann fannst veggjarbútur sem er ennþá eldri, eða síðan fyrir 871 og er hann meðal elstu mannvistarleifa sem fundist hafa á Íslandi. Sýningin teygir sig svo áfram neðanjarðar frá Aðalstræti 16 yfir í elsta hús Kvosarinnar, sem er Aðalstræti 10 og heldur áfram til samtímans. Þættir úr sögu Reykjavíkur eru dregnir fram og við sjáum daglegt líf íbúanna og tíðarandann í aldanna rás. Sýningin vekur upp spurningar og áhuga - og kemur á óvart með fjölbreyttri miðlun og upplifun þar sem mikilvægi Aðalstrætis sem sögumiðja Reykjavíkur er undirstrikað enn frekar.











